Fara í efni
Til baka í yfirlit

Þrif á nýjum bílum

Þrif

Það skiptir miklu máli með hvaða efnum og hvernig þú þrífur bílinn þinn. Regluleg og sértæk umhirða stuðlar að góðu viðhaldi bílsins.

Röng efni og/eða röng notkun getur valdið skemmdum á bílnum sem ábyrgð framleiðanda bætir ekki.

Varast ber að nota ákveðin efni sem innihalda til dæmis alkahól sem er sérstaklega slæmt fyrir plast og króm, ljós og lista og passa þarf sérstaklega að láta efnin ekki þorna á bílnum.

Þá getur notkun tjöruhreinsis verið afar varasöm þar sem efnið hefur tærandi áhrif. 

Því lengur sem óhreinindi vegna mengunar og annara þátta fá að standa á yfirborði hinna ýmsu hluta bifreiðarinnar verður erfiðara að þrífa þá og meðhöndla. Sé ekkert aðhafst til lengri tíma verður ómögulegt að fjarlægja óhreinindin.

Umhirða bifreiðarinnar

Við mælum með því að nota eingöngu hreinsiefni sem eru sérstaklega hönnuð fyrir bílinn. Hekla bíður upp á úrval hreinsiefna frá Volkswagen, Audi, Skoda og Mitsubishi sem henta vel fyrir bílinn þinn.

  • Hreinsun á hlutum bifreiðarinnar verður að fara fram í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda bílsins.
  • Notaðu ávallt viðurkenndar eða ráðlagðar hreinsivörur.
  • Ekki nota hreinsivörur sem innihalda leysiefni. Leysiefni geta valdið óafturkræfum skemmdum.
  • Aldrei skal nota terpentínu, naglalakkeyði eða aðra rokgjarna vökva við umhirðu bifreiðarinnar.
  • Leitaðu til fagfólks ef um erfiða bletti er að ræða.
  • Fylgdu ávallt notkunarleiðbeiningum framleiðanda þeirra efnavara sem þú notar við þrif og umhirðu bílsins.

Bílþvottur

Leiðbeiningar um hvernig rétt er staðið að bílþvotti

 

Sjálfvirkar þvottastöðvar
Gluggar verða að vera lokaðir og hliðarspeglarnir felldir að bílnum.
Slökkt skal vera á rúðuþurrkum.
Ekki velja þvottakerfi með heitu bóni á bíla með skraut- eða varnarfilmum.
Fylgdu leiðbeiningum bílaþvottastöðvarinnar, sérstaklega hvað varðar viðbætur eins og vindskeið.
Sjá einnig leiðbeiningar í eigandahandbók bílsins.

Háþrýstiþvottur
Fylgdu leiðbeiningum framleiðanda og forðastu notkun snúningsstúta.
Hámarkshiti vatns sem notað er við þvottinn ætti ekki að fara yfir 60°C.
Ekki þrífa rúður með háþrýstidælu ef þær eru þaktar snjó eða ísing er til staðar.
Beindu vatnsbununni þannig að hún fari jafnt um fleti bílsins og að stúturinn sé a.m.k. 50 cm. frá bílnum.
Ekki beina vatnsbununni að sama fleti of lengi í senn.
Ekki beina vatnsbununni að gúmmíþéttingum eða öðrum viðkvæmum hlutum bílsins, svo sem hliðarrúðum, glansfilmum, dekkjum, myndavélalinsum eða skraut- og varnarfilmum.

Handþvottur
Bíllinn skal þveginn með léttum strokum með mjúkum svampi, þvottahanska eða -bursta.
Gott er að byrja efst á bílnum og vinna sig svo niður.
Notaðu bílasjampó á þrálát óhreinindi.

Vinsamlegast athugið!

Ekki þvo bílinn í beinu sólarljósi.
Ekki nota harða bursta eða slípibursta.
Fylgdu ávallt leiðbeiningum framleiðanda.
Aldrei beina vatnsbununni beint á hurðir eða skottlok ef kalt er í veðri en það gæti orðið til þess að hlutir frjósi.
Hlutir og fletir með mattri áferð, ólakkaðir plasthlutir, fram- og afturljós geta skemmst ef bíllinn er ekki þveginn á réttan hátt.

 

VARÚÐ!

Að þvotti loknum gæti bremsuvirkni tafist og þar af leiðandi lengt hemlunarvegalengd þar sem bremsudiskar og bremsuklossar koma til með að vera blautir eða jafnvel ísaðir að vetri til. Með því að bremsa varlega nokkrum sinnum má þurrka og afísa bremsurnar. Gættu þess að slíkar aðgerðir stofni ekki öðrum vegfarendum í hættu.

 

Atriði til að hafa í huga varðandi rafmangs- og tengiltvinnbíla.
Ljúktu hleðslunni og lokaðu hleðslutenginu kirfilega áður en bíllinn er þveginn.
Vatnsbunu skal aldrei beint að appelsínugulu háspennuköplunum, íhlutum háspennukerfisins eða 12 volta rafkerfinu.

Bón, mössun og bílar með mattri áferð

Bón
Bón verndar lakk bílsins. Ef litlir vatnsdropar hætta að myndast og renna af lakkinu þegar bíllinn er hreinn er það skýrt merki um að bíllinn skuli bónaður á ný með góðu hlífðarbóni.
Við mælum með því að bera á bílinn að minnsta kosti tvisvar sinnum á ári með gljábóni jafnvel þótt hlífðarbón sé borið reglulega á í sjálfvirkum bílaþvotti.

Mössun
Mössun er aðeins nauðsynleg ef lakkið hefur tapað gljáa sínum og hlífðarbón nægir ekki til að draga hann aftur fram.
Ekki má massa matt-málaða hluta bifreiðarinnar! Lakk með mattri áferð verður fyrir óafturkræfum skemmdum ef það er massað.

Þvottur bíla með mattri áferð
Aðeins skal handþvo matt-málaða bíla eða velja þvottastöðvar sem nota tauefni við þvottinn og sleppa bóninu. Þegar bíllinn er handþveginn skal byrja á því að fjarlægja gróf óhreinindi með nægu vatni og þvo síðan fleti með mildri sápulausn sem samanstendur að hámarki af tveimur matskeiðum af hlutlausri sápu sem er þynnt út í einn lítra af vatni.

Lítilvæg óhreinindi eins og fitubletti eða skordýraleifar má fjarlægja með sérstöku hreinsiefni fyrir lakk með mattri áferð.

Umhirða og þvottur ytra byrði bifreiðarinnar

Eftirfylgjandi samantekt inniheldur ráðleggingar hvað varðar þrif og umhirðu einstakra hluta bifreiðarinnar.

Lakk:
Fletir skulu ávallt meðhöndlaðir með gát til að koma í veg fyrir skemmdir á lakkinu. Notaðu hreinan og mjúkan klút með mildri sápulausn sem samanstendur að hámarki af tveimur matskeiðum af hlutlausri sápu sem þynnt er út í einn lítra af vatni. Hægt er að nota hreinsileir til að fjarlægja smávægileg óhreinindi eins og göturyk, skordýraleifar eða snyrtivörur.

Blettaðu í smávægilegar skemmdir á lakki með þar til gerðum „touch-up“ penna. Þú finnur upplýsingar um lakkkóðann á merkimiða sem er til staðar í bílnum og hjá þjónustuumboðum. Leitaðu nánari upplýsinga hjá viðurkenndum þjónustuaðila í tilfelli skemmda á flötum með mattri áferð.

 

Fram- og afturljós:
Notaðu mjúkan svamp sem bleyttur hefur verið í mildri sápulausn sem samanstendur að hámarki af tveimur matskeiðum af hlutlausri sápu sem er þynnt út í einn lítra af vatni. Ekki nota hreinsiefni sem innihalda alkóhól eða leysiefni.
Séu þrálát óhreinindi á ljósum mælum við með að nota Volkswagen Genuine Chrome and Aluminium Care hreinsiefnið (000 096 319 D).

 

Rúður og glerfletir:
Fjarlægðu allar bónleifar með hreinsiklút eða þar til gerðum glerhreinsi.
Fjarlægðu snjó og klaka með handbursta. Gættu þess að skafa aðeins í eina átt ef þú notar plastsköfu. Notaðu afísingarefnið til að afísa.

 

Rúðuþurrkur:
Ekki nota þvottaefni sem innihalda leysiefni, harða svampa eða aðra beitta hluti þar sem þeir geta skemmt húðun þurrkublaðanna.

 

Skynjarar og myndavélalinsur:

  • Hreinsaðu svæðið í kringum skynjara og myndavélina með mjúkum klút og hreinsilausn án leysiefna. Athugaðu hvar slíkur búnaður er staðsettur á bifreiðinni í eigandahandbók bílsins og ef við á hvernig best er að komast að honum.
  • Þrífðu viðkvæma fleti á regn- og birtuskynjara ásamt myndavélinni sjálfri á framrúðunni á sama hátt og þú myndir þrífa rúður og glerfleti (í samræmi við búnað bílsins).
  • Notaðu handbursta til að fjarlægja snjó. Notaðu hvorki volgt né heitt vatn. Notaðu afísingarefni til að afísa.

 

Skraut- og varnarfilmur:
Óhreinindi skulu fjarlægð á sama hátt og ef lakk væri um að ræða. Notaðu plasthreinsi á filmur með mattri áferð.
Berðu fljótandi gljábón á bílinn á þriggja mánaða fresti að þvotti loknum. Notaðu aðeins hreinan og mjúkan örtrefjaklút til að bera bónið á. Ekki nota heitt bón, ekki einu sinni á bílaþvottastöðvum.

  • Þrálát óhreinindi: Hreinsaðu varlega með hvítspíra og skolaðu síðan með volgu vatni.
  • Umhverfisþættir eins og sólarljós, raki, mengað loft, steinkast o.s.frv. geta haft áhrif á endingu og lit skraut- og varnarfilma. Það getur farið að sjá á skrautfilmum eftir um það bil eitt til þrjú ár og á varnarfilmum eftir um tvö til þrjú ár. Í sérstaklega heitu loftslagi geta skrautfilmur dofnað innan eins árs og varnarfilmur innan tveggja ára.

 

Hlutir úr krómhúðuðu plasti, áli eða ryðfríu stáli og púströr:

  • Hreinsið flötinn með króm og ál hreinsi.
  • Gljábón má nota til að veita krómhúðuðum plasthlutum vörn.

 

Felgur:

  • Notaðu mikið vatn til að fjarlægja óhreinindi og saltagnir.
  • Óhreinar álfelgur skulu meðhöndlaðar með felguhreinsi. Við mælum með því að bera gljábón á felgurnar að minnsta kosti á þriggja mánaða fresti.