Karfan er tóm.
Audi Q5 sportlegur og fjölhæfur
Q5 er með quattro fjórhjóladrifi Audi og úrvali af af bensín- og dísilvélum sem að undanförnu hafa sankað að sér verðlaunum fyrir mikla skilvirkni og sparneytni. Audi fer einna fremst bílaframleiðenda í nýrri tækni og sjö gíra S tronic skipting með tvöfaldri kúplingu og Audi ökuvalskerfi er í takt við kjörorð fyrirtækisins, Vorsprung durch Technik.
Audi, sem undanfarið hefur vakið talsverðrar athygli heimspressunnar með velheppnuðum, nýjum bílum í flestum stærðarflokkum, kynnir nú til sögunnar nýjan bíl. Q5 er blanda af borgarjeppa og fólksbíl í lúxusflokki með breytanlegt innanrými sem gerir hann kjörinn til notkunar innanbæjar og í lengri ferðalögum. Það vinnur ekki á móti Q5 að hann er með quattro fjórhjóladrifi Audi og úrvali af af bensín- og dísilvélum sem að undanförnu hafa sankað að sér verðlaunum fyrir mikla skilvirkni og sparneytni. Audi fer einna fremst bílaframleiðenda í nýrri tækni og sjö gíra S tronic skipting með tvöfaldri kúplingu og Audi ökuvalskerfi er í takt við kjörorð fyrirtækisins, Vorsprung durch Technik.
Q5 er alveg ný gerð borgarjeppa, sportlegri og stærri í sniðum en keppinautarnir eins og tölurnar bera með sér. Hann er 4,63 m á lengd, 1,88 m á breidd en aðeins 1,65 á hæð. Hann setur einnig ný viðmið hvað lága loftmótstöðu varðar í þessum flokki. Hönnun Q5 er fullkomlega í takt við ættareinkenni Audi. Framendinn er með áberandi framljósum og stóru grilli. Hægt er að fá bi-xenon framljós og LED-dagljós.
Q5 er fáanlegur með svörtum hliðarlistum og stuðurum, andstæðum lit eða með samlitum listum og stuðurum. Hann er boðinn í tveimur útfærslum. Í S-útfærslu er lögð áhersla á sportlegt útlit þessa aflmikla borgarjeppa. Í torfæruútfærslu eru hins vegar hlífar á undirvagni að framan og aftan og 19 tommu dekkin gefa honum kraftmikið yfirbragð.
Q5 státar af lengsta hjólhafinu í stærðarflokknum, 2,81 m, sem stuðlar að rúmgóðu innanrými. Sætaskipan er breytileg og bíllinn rúmar fimm fullorðna í þægindum. Farþegar í aftursætum geta breytt halla á sætisbökunum og auðvelt er að fella sætisbökin niður til að skapa pláss fyrir meiri farangur.
Dæmigerður fjölskyldusvipur er yfir innanrýminu en í Audi Q5 er mælaborðið í hærri stöðu í samræmi við hærri sætastöðu. Öllum stjórnrofum er komið fyrir innan seilingar ökumanns og frágangur og efnisval er eins og best gerist. Notkun áls, sérvalins viðar, króms, leðurs og alcantara gefur bílnum yfirbragð lúxusbíls. Staðalbúnaður er rafeindastýrð handbremsa, snjalllykill, loftfrískunarkerfi og stór skjár í mælaborði sem sýnir meðal annars ákjósanlegasta gírval hverju sinni sem stuðlar að skilvirkni í akstri.
Aflmiklar og sparneytnar vélar
Audi Q5 verður boðinn með þremur gerðum véla strax við kynningu, þar af tveimur TDI dísilvélum. Allar eru þær með beinni innsprautun og forþjöppu. Sammerkt með þeim er mikið afl og þýð vinnsla ásamt mikilli sparneytni. 2ja lítra TFSI vélin hefur verið endurhönnuð frá grunni og felur í sér hátækni á þremur sviðum, þ.e.a.s. beina strokkinnsprautun, forþjöppun og hið nýstárlega ventlaopnunarkerfi Audi sem stýrir breytilegri ventlaopnun vélarinnar. Vélin skilar 211 hestöflum og togið er 350 Nm við 1.500 snúninga. Hröðun úr kyrrstöðu í 100 km hraða tekur aðeins 7,2 sekúndur. Meðaleyðslan er 8,5 lítrar sem telst hófsamt miðað við afl. TDI dísilvélin er sömuleiðis fjögurra strokka og með tveggja lítra slagrými. Hún er með nýrri gerð samrásarinnsprautunar sem gerir hana einstaklega gangþýða. Hún skilar 170 hestöflum og hámarkstogið er 350 Nm. Það sem vekur athygli er að meðaleyðslan er einungis 6,7 lítrar á hundraðið. Hröðun er 9,5 sekúndur í 100 km/klst og hámarkshraðinn 204 km. Aflmesta vélin er hins vegar 3ja lítra TDI, V6-vélin sem skilar 240 hestöflum. Hámarkstog er 500 Nm og hröðunin 6,5 sekúndur í 100 km hraða. Meðaleyðslan er hins vegar ekki nema 7,7 lítrar.
Sjö þrepa sjálfskipting
Meðal tækninýjunga í Audi Q5 er nýja S-Tronic skiptingin. Þetta er nýr, hátæknivæddur gírkassi með tveimur kúplingum og sjö gírum sem skiptir um gíra á broti úr sekúndu á afar skilvirkan hátt. Hægt er að nota gírkassann eins og hann væri sjálfskiptur og í þeim ham er hægt að skipta um gíra með rofum á stýrishjólinu. S-Tronic mun strax verða fáanleg í 2.0 TFSI og 3.0 TDI bílunum en síðar í 2.0 TDI bílnum.
Q5 er að sjálfsögðu með hinu rómaða quattro, sítengda fjórhjóladrifi sem við allan venjulegan akstur deilinu átakinu í hlutföllunum 40:60 til fram- og afturáss sem gefur bílnum mikinn stöðugleika í akstri. Þegar þörf krefur deilir kerfið allt að 65% af átakinu til framhjólanna eða allt að 85% til afturhjólanna eftir aðstæðum hverju sinni. Staðalbúnaður er 17 tommu álfelgur og 235/65 hjólbarðar. Bíllinn er síðan fáanlegur á allt að 20 tommu felgum.
Það er til marks um nákvæmnina sem er í hávegum höfð við útfærslu bílsins að rafeindastýrð stöðugleikastýringin skynjar það ef toppbogar eru settir á þak bílsins og grípur fyrr inn í aksturinn. Það veldur að sjálfsögðu breytingu á þyngdarpunkti bílsins ef allt að 100 kg af farangri eru sett á þak hans.
Dráttargeta Q5 er allt að tvö tonn. Staðalbúnaður er m.a. hallastýrikerfi sem ákvarðar hraðann á bílnum þegar farið er niður brattar brekkur. ESP- og ABS-kerfið hefur sérstaka virkni þegar ekið er í torfærum og velur þá ákjósanlegustu þegar ekið er í sandi, möl eða lausamöl. Annars tala tölurnar sínu máli. Q5 hefur klifurgetu í 31 gráðu halla. Aðgangshornið er 25 gráður þökk sé lítilli slútun, veghæð er 20 cm og vaðdýpt allt að hálfur metri.
Ökuvalskerfi Audi – enn meiri akstursánægja
Q5 er stútfullur af hátæknivæddum búnaði sem ætti að stuðla að enn ánægjulegri akstursupplifun en ella. Þar má nefna ökuvalskerfi Audi, sem er aukabúnaður sem stýrir virkni margvíslegs tæknibúnaðar í bílnum. Með því að þrýsta á einn takka getur ökumaður ákveðið hvort aksturinn eigi að einkennast af þægindum eða hvort hann sækist eftir skilvirkum eða sportlegum akstri. Ökuvalskerfið felur í sér rafeindastýrða stjórnun á höggdeyfum og stýri með beygjuhring og átaki sem lagar sig að hraða bílsins. Þetta felur m.a. í sér að minna þarf að beita stýrinu þegar lagt er í stæði og stýrið þyngist og bregst minna við á miklum hraða. Meðal staðalbúnaðar í nýja lúxusborgarjeppanum frá Audi er hljómtæki með átta hátölurum og val um margvíslegan margmiðlunarbúnað eins og t.a.m. blátannartengingu, DVD-drif, útvarpstæki með raddstýringu, iPod-tengingu og hágæða hljómtæki frá Bang & Olufsen.