Karfan er tóm.
Heimsfrumsýning á nýrri kynslóð VW Golf á Íslandi í september
Stærsta bílaskynning sem haldin hefur verið hér á landi fer fram í september næstkomandi þegar sjötta kynslóð hinna vinsælu VW Golf bíla verður heimsfrumsýnd á Íslandi. Kynningarátakið mun standa yfir í þrjár vikur og eru um 1500 blaða- og fréttamenn væntanlegir til landsins og atburðurinn því jafnframt mikil landkynning fyrir Ísland.
Meginástæðan fyrir því að Volkswagen ákvað að kynna nýja kynslóð VW Golf á Íslandi er náttúrufegurð landsins sem hefur mikið aðdráttarafl fyrir erlenda gesti og býður jafnframt upp á sérstætt og spennandi umhverfi fyrir myndatökur. Allir helstu stjórnendur Volkswagen verða viðstaddir heimsfrumsýninguna og verða alls um 200 bílar fluttir til landsins vegna kynningarinnar. Um 100 þeirra verða af sjöttu kynslóð VW Golf og einnig verða fluttir inn í tengslum við viðburðin um 40 VW Pheaton lúxusbílar, VW Touareg jeppar og VW Passat R36.
Um 1.500 blaða- og fréttamenn frá um 50 löndum eru væntanlegir vegna frumsýningarinnar á nýja Golfinum í september. Þeir verða ferjaðir í 80 manna hópum til landsins með leiguflugi, frá 8. til 26. September, og staldrar hver hópur hér við í tvo daga. Komið verður upp glæsilegri fræðslu- og sýningaraðstöðu í Bljáfjöllum og þaðan verður farið í reynsluakstur á nýju bílunum um næsta nágrenni, að Gullfossi og Geysi, Kerinu, Nesjavöllum og Bláa lóninu, svo aðeins nokkrir staðir séu nefndir.
„Það er okkur hjá HEKLU, umboðsaðilum Volkswagen á Íslandi, mikið ánægjuefni að stjórnendur Volkswagen skuli vilja heimsfrumsýna nýja kynslóð VW Golf hér á landi,“ segir Sverrir Viðar Hauksson, framkvæmdastjóri bílasviðs HEKLU. „Við hlökkum mikið til að taka þátt í þessu ævintýri og höfum undanfarna mánuði unnið að þessu verkefni með þeim ásamt fjölmörgum innlendum aðilum. Við erum sannfærðir um að Volkswagen eigendur og aðrir landsmenn munu hrífast af þessum frábæra bíl.“