Karfan er tóm.
HEKLA afhenti tólf rafbíla til átta fyrirtækja
Stærsta rafbílaafhending sem farið hefur fram á Íslandi, var 8. ágúst í húsnæði HEKLU hf við Laugaveg. Tólf Mitsubishi i-MiEV rafbílar voru afhentir kaupendum sem flestir eiga það sameiginlegt að vera íslensk fyrirtæki á sviði orkumála. Friðbert Friðbertsson forstjóri HEKLU hf afhenti bílana og var Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra viðstödd afhendinguna.
Kaupendur bílanna eru Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Eignarsjóður Reykjavíkur, Landsnet, Skeljungur, HS Veitur, Norðurorka og Bílastæðasjóður. Með kaupunum eru fyrirtækin að stíga skref í átt að umhverfisvænni bílaflota og vilja um leið vekja athygli á því að rafbílar eru raunhæfur valkostur fyrir önnur fyrirtæki sem og almenning.
Rafbílar raunverulegur kostur og bílarnir fást tímabundið á kynningarkjörum
Til þess að gera áhugasömum kleift að vera með í þessari þróun hefur verið gert samkomulag við Mitsubishi um að bjóða íslenskum almenningi rafbíla á sömu kynningarkjörum og bílarnir sem afhentir voru. Það tilboð er tímabundið og gildir á meðan birgðir endast. Góð reynsla er komin á notkun þessara bíla á Íslandi enda komu þeir fyrstu til landsins fyrir meira en þremur árum. Bílarnir hafa reynst vel og viðskiptavinir hafa verið ánægðir með þá.
Friðbert Friðbertsson, forstjóri HEKLU hf;
Þetta er merkilegur dagur. Aldrei fyrr hafa svo margir rafbílar verið afhentir á einu bretti á Íslandi. Þetta kann að vera eitt af stóru skrefunum í átt að umhverfisvænna samfélagi á Íslandi. Hagstæðir samningar náðust við Mitsubishi um verð á i-MiEV rafbílum og það verð endurspeglar þær væntingar sem HEKLA og Mitsubishi hafa til Íslands sem markaðar fyrir rafbíla.
Vistvænir bílar hluti af framtíðarsýn
Upphaf kaupanna í dag má rekja til viljayfirlýsingar sem undirrituð var af Mitsubishi, HEKLU, Orkustofnun og Iðnaðarráðuneytinu árið 2008 í tengslum við kaup á hverflum fyrir jarðhitavirkjanir. Ljóst er að verulega er hægt að draga úr umhverfisáhrifum frá samgöngum með fjölgun bíla sem nota vistvænt eldsneyti. Nú þegar hafa á annað þúsund metan bíla verið skráðir en mikið átak þarf til að ná markmiðum opinberra aðila sem er að 10% alls eldsneytis á bíla á Íslandi verði vistvænt árið 2020. Þetta er stórt skref í rétta átt. En við getum gert betur og vonandi munu fleiri fyrirtæki og einstaklingar nýta sér þetta tilboð, segir Jón Björn Skúlason framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku. (sjá myndir hér)