Karfan er tóm.
Iðnaðarráðherra skrifar undir viljayfirlýsingar um prófanir á i-MiEV rafbílnum við Mitsubishi Motors Corporation og um þróun þjónustunets við Mitsubishi Heavy Industries og Mitsubishi Corporation
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra skrifar í dag undir tvær viljayfirlýsingar um samstarf sem á að stuðla að því að Íslendingar geti nýtt innlenda orkugjafa sem mest í samgöngum. Fyrri yfirlýsingin felur í sér samstarf við Mitsubishi Motors Corporation (MMC) og sú síðari við Mitsubishi Heavy Industries (MHI) og Mitsubishi Corporation (MC).
Báðar viljayfirlýsingarnar verða undirritaðar í tengslum við ráðstefnu um vistvænan akstur (Driving Sustainability) sem nú fer fram á vegum Framtíðarorku á Hilton hótelinu í Reykjavík. Þeir sem skrifa undir viljayfirlýsingarnar eru Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, Ichiro Fukue, aðstoðarforstjóri MHI, Tetsuro Aikawa, framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá höfuðstöðum MMC, Tunao Kojima, framkvæmdastjóri MC fyrir Evrópu, Mið-Austurlönd og Afríku, Knútur Hauksson, forstjóri Heklu, umboðsaðila Mitsubishi á Íslandi og Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.
Fyrri yfirlýsingin fjallar um fyrirhugað samstarf um prófanir á nýrri kynslóð Mitsubishi rafbíla, svokallaðra i-MiEV bíla (the zero-emissions Mitsubishi innovative Electric Vehicle), á Íslandi.
Síðari viljayfirlýsingin felur í sér að MHI og MC muni leggja lið langtímaáformum íslensku ríkisstjórnarinnar um að íslenskt samfélag verði óháð notkun jarðefnaeldsneytis. Fyrirtækin munu veita margvíslega tæknilega aðstoð svo Íslendingar geti tekið afgerandi forystu í nýtingu hreinna orkugjafa og hætt losun koltvísýrings í tengslum við brennslu jarðefnaeldsneytis. Fyrsta skrefið í samstarfinu verður þátttaka fyrirtækjanna í uppbyggingu þjónustunets fyrir næstu kynslóð bifreiða sem gengur eingöngu fyrir rafmagni.
Rafbíllinn frá Mitsubishi hefur verið til sýnis á ráðstefnunni á Hilton hótelinu og í dag mun Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra prufukeyra bílinn. i-MiEV rafbíllinn er knúinn lithíum rafhlöðum og kemst um 160 kílómetra* vegalengd á hverri hleðslu. Hægt er að tengja i-MiEV rafbílinn við venjulegt heimilisrafmagn. Það tekur innan við 7 klukkustundir að fullhlaða hann og á þjónustustöðvum sem bjóða hraðhleðslu tekur um 30 mínútur að ná um 80% hleðslu. Áætlað er að reksturskostnaður i-MiEV rafbílsins sé einungis 1/9 af því sem kostar að reka sambærilegan smábíl** sem gengur fyrir bensíni.
*Skv. prófunum sem gerðar hafa verið í Japan.
**Byggt á japönskum markaðsupplýsingum.