Karfan er tóm.
Ísland enn og aftur fyrsta val - Frumsýning á Audi sportbílum
Undanfarin misseri hefur færst í aukana að bílaframleiðendur velji Ísland sem vettvang kynninga á nýjum bílum. Flestir muna risakynningu sem fram fór hér í september síðastliðnum þegar vel á annað þúsund blaðamenn heimsóttu Ísland við frumkynningu á sjöttu kynslóð Volkswagen Golf.
Í vikunni hófst hér á landi kynning á vegum Audi lúxusbílaframleiðandans þegar fyrstu hópar franskra blaðamanna koma til landsins og reynsluaka nýjum Audi bifreiðum. Hér er um að ræða frumkynningu á nýjum Audi A5 Cabriolet, Audi S5 og nýjum fjórhjóladrifnum Audi A4 Allroad. Af því tilefni hafa 10 mjög vel búnar bifreiðar af þessum gerðum verið fluttar til landsins. Von er á fimmta tug blaðamanna í tengslum við kynninguna sem stendur til 15. júní næstkomandi.
Þetta er annað árið í röð sem Audi í Frakklandi kemur hér með hópa. Í fyrra komu þeir hingað með umboðsmenn sína en nú völdu þeir að kynna bílana hér á landi.
Þetta er hin besta Íslandskynning, því í greinum sem fylgja slíkri umfjöllun er áfangastaðnum yfirleitt gerð mjög góð skil í máli og myndum. Þess má geta að á meðal fjölmiðla sem heimsækja Ísland að þessu sinni er TF1 sem er bæði vinsælasta sjónvarpsstöð Frakklands og Evrópu.
HEKLA kemur að undirbúningi þessarar kynningar og sér m.a. um bílaflotann í tengslum við kynninguna sem mun að mestu leyti fara fram á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi.