Karfan er tóm.
Nýjar kynslóðir Transporter, Multivan, Caravelle og California í haust
-
Grunngerðir þessa vinsæla bíls, sem hefur selst í milljónum eintaka víða um heim, eru Transporter, Caravelle, Multivan og California.
-
Gríðarstór aðdáendahópurinn samanstendur af mönnum úr ólíkum þjóðfélagsstéttum eins og þjónustuaðilum, sölumönnum, fjölskyldufólki, kaupsýslumönnum og ferðalöngum. Þessi fjölhæfi bíll er táknmynd fyrir endalausan akstur, fjölbreytileika og lífsmáta þess sem vill vera á ferðinni.
-
Nýjar gerðir bílanna koma á markað fáeinum vikum eftir að Multivan og California verða frumsýndir á bílasýningunni í Frankfurt í september.
-
Nýju gerðirnar losa minni koltvísýring, eru sparneytnari, hagkvæmari í rekstri, þægilegri í notkun, glæsilegri og öruggari en áður.
Volkswagen kynnti á dögunum næstu kynslóð af Volkswagen Transporter, Multivan, Caravelle og California, og eru bílarnir væntanlegir á markaðinn í haust. Yfirbygging þessa vinsæla bíls er nú í takt við nýja hönnunarstefnu Volkswagen og gefur ný hönnun á framenda bílsins honum enn glæsilegri ásýnd en áður. Ennfremur hefur hann fengið miklar tæknilegar viðbætur. Í því sambandi má nefna að nýju forþjöppudísilvélarnar eru sparneytnari, einstaklega hljóðlátar og nú með samrásarinnsprautun.
Þökk sé nýju TDI-vélinni er eldsneytisnotkunin nú allt að 1,9 lítrum minni en áður og losun koltvísýrings 52 gr/km minni. Allar vélar sem í boði eru uppfylla því EU5 staðalinn. Þessu til viðbótar eru nýju gerðirnar nú fáanlegar með 7 gíra tvíkúplandi gírkassanum, DSG, sem hefur ekki áður verið fáanlegur í bíla í þessum flokki. Annar valbúnaður er nýja aldrifskerfið (4Motion með 4. kynslóð Haldex seigjukúplingar), sem gerir bílinn hæfan til aksturs utan vega. Stóru tíðindin eru þau að frá og með næsta ári býður atvinnubíladeild Volkswagen nýju gerðirnar í fyrsta sinn með 4Motion aldrifskerfinu og DSG gírkassanum.
Öryggisbúnaður hefur verið bættur til muna í bílnum til að mynda með brekkuviðhaldi, sem er staðalbúnaður, háþróuðu ESP-kerfi, nýjum neyðarljósum í hemlaljósinu (neyðarhemlunarljós) og nýju stoðkerfi fyrir ökumann sem er aukabúnaður. Auk þess eru nýir stjórnrofar í innanrýminu, nýtt stýri, útvarp/leiðsögukerfi ásamt nýjum áklæðum sem fullkomna þægilegt umhverfi ökumanns.
Fjórar nýjar samrásardísilvélar og tvíkúplandi gírkassi (DSG)
Þetta er söluhæsti bíllinn í sínum flokki í Þýskalandi og allri Evrópu. Hann kemur með fjórum nýjum fjögurra strokka disilvélum með samrásarinnsprautun sem setja ný viðmið bæði hvað varðar eldsneytissparnað og vistvænleika. Dísilvélarnar (1,968 cm³) eru 84 hestafla, 102 hestafla, 140 hestafla og 180 hestafla. 140 hestafla vélin er með forþjöppu með breytilegri skurðafstöðu á blöðum (VGT) en 180 hestafla vélin er með tvöfaldri forþjöppu. Stærsti kosturinn við aflmestu vélina er hve sparneytin hún er. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem fjölnota-, sendiferða- eða ferðabíll er útbúinn með 7 gíra tvíkúplandi gírkassa (DSG) sem leiðir til eldsneytiseyðslu sem er 1,9 lítrum minni en í sambærilegum bíl með 6 þrepa sjálfskiptingu. 115 hestafla bensínvélin er hin sama og í fyrri gerð bílsins en hún uppfyllir nú EU5 staðalinn.
Volkswagen tókst að draga úr koltvísýringslosun og eldsneytisnotkun um 10% miðað við fyrri gerðir yfir alla framleiðslulínuna. Framdrifsgerðirnar með beinskiptum gírkassa og 84 og 102 hestafla vélunum eyða frá 7,2 lítrum á hundraðið og losa frá 190 gr/km af koltvísýringi. Með 180 hestafla vélinni eyðir bíllinn 7,5 lítrum og losar sömuleiðis 190 gr/km. Þetta er allt að 0,9 lítrum minni eyðsla en áður. Allar fjórar dísilvélarnar eru einkar viðbragðsþýðar. Sú minnsta þeirra, 84 hestafla gerðin, togar mest 220 Nm strax við 1.250 snúninga á mínútu. Hámarkstog 102 hestafla vélarinnar er 250 Nm við 1.500 snúninga og 140 hestafla vélarinnar 340 Nm við 1.750 snúninga. Flaggskipið, 180 hestafla gerðin, skilar hvorki meira né minna en 400 Nm togi við 1.500 snúninga. Allar gerðirnar eru að sjálfsögðu með sótagnasíu.
Multivan og félagar samkvæmt nýrri hönnunarforskrift Volkswagen
Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á nýju kynslóðinni en algjörlega breyttur framendi er mest áberandi. Skýrar, framvísandi línur í yfirbyggingunni gefa bílnum klassískt og glæsilegt yfirbragð. Rimarnar í vatnskassahlífinni eru svartar með mattri áferð en í Caravelle Comfortline, Multivan og California Comfortline eru rimarnir með gljáa og krómlagðar. Efsti krómlistinn teygir sig inn í framljósin sem eru með nýjum svip. Ný þokuljós í afturstuðaranum gegna einnig hlutverki beygjuljósa sem er nýjung.
Nýtt stoðkerfi fyrir ökumann og meiri staðalbúnaður
Nýju bílarnir koma á 17" og 18" álfelgum eftir búnaðarútfærslum. Hliðarspeglarnir eru nýrrar gerðar og veita minni loftmótstöðu. Nýjung er að allt loftnetskerfi bílsins er staðsett inni í hliðarspeglunum. Enn önnur nýjung er sú að þessir metsölubílar eru núna fáanlegir með akreinavara, Side Assist. Búnaður þessi hefur áður verið í boði í Touareg. Kerfið styðst við LED-ljós í hliðarspeglunum sem varar ökumann við öðrum ökutækjum utan sjónlínu. Loks má nefna til sögunnar þá nýjung sem er skjár fyrir eftirlit með hjólbarðaþrýstingi (TMD). TMD kerfið greinir á rauntíma snúningshraða hjólbarðanna. Með samanburði á snúningshraða einstakra hjólbarða greinir kerfið strax ef loftþrýstingur minnkar. Fleiri nýjungar: Multivan Comfortline kemur nú á 16" álfelgum. Multivan Highline kemur hins vegar á 17" álfelgum og með krómlistum á hliðum og afturhlera.
Innanrýmið færist nær því sem gerist í fólksbílum
Innanrými nýju gerðanna hefur verið endurhannað að öllu leyti. Mælarnir eru gott dæmi um það. Þeir eru með nýrri lögun og nú með hvítri baklýsingu og rammaðir inn í krómramma. Í mælaborði allra gerða nýju kynslóðarinnar er lítill skjár þar sem ákjósanlegasta gírskipting er sýnd. Allar gerðir útvarps- og leiðsögutækja sem í boði eru hafa verið endurnýjaðar. Tæknilegasta útfærslan núna er RNS 510 sem er með snertiskjá og hörðum diski fyrir leiðsögukerfið. Dynaudio hljómkerfið, sem er aukabúnaður, skilar frá sér magnaðri tónlistarupplifun. Með USB-tenginu, Media-IN, er á einfaldan og fljótvirkan hátt hægt að tengja alls kyns tæki, til að mynda MP3 spilara. Nýr búnaður í innanrými er stjórnrofar fyrir hálfsjálfvirka og alsjálfvirka loftkælingu og þriggja arma stýri. Í mörgum gerðanna er meiri staðalbúnaður en áður. Þetta á til dæmis við um Multivan Startline. Miðað við fyrri gerð er grunngerðin nú með skreytilistum í innanrýminu og hliðarbelgi og loftpúðagardínur fyrir ökumann og farþega í framsæti. Þá er núna hægt að panta Transporter með nýjum tvöföldum farþegabekk að framan sem kemur með innbyggðu geymsluhólfi. Nýju kynslóðirnar verða komnar í sölu um miðjan október.
Nýr Volkswagen Transporter er væntanlegur til Íslands í haust.