Karfan er tóm.
Nýr Volkswagen Polo frumsýndur á bílasýningunni í Genf
Útgangspunktur í hönnun nýs Polo var sá að bíllinn uppfyllti kröfur sem gerðar eru til þess að ná 5 stjörnum í árekstrarprófun EuroNCAP. Kröfurnar voru nýlega endurskoðaðar og eru strangari og ítarlegri en áður. Meiri stífleiki í yfirbyggingu Polo er eitt þeirra atriða sem stuðlar að þessum árangri. Dæmi um þetta er 50% minni aflögun á svæði fyrir fótleggi bílstjóra og farþega í framsæti, sem getur orðið í árekstri að framan.
Staðalbúnaður í Evrópugerð Polo er auk þess ESP stöðugleikastýring og Hill Hold Control brekkuviðhald. Þá er bíllinn með afar skilvirku kerfi öryggispúða, þar með töldum öryggispúðum fyrir höfuð og háls, sem eru innfelldir í framsætisbökin, öryggisbeltastrekkjurum og átaksjöfnurum ásamt viðvörunarljósi fyrir öryggisbelti. Einnig er hluti af búnaðinum hnakkapúðar fyrir bæði framsæti sem draga úr líkum á meiðslum vegna hálshnykkja.
Þrátt fyrir umtalsverðar endurbætur á öllum sviðum tókst hönnuðum VW að létta yfirbyggingu Polo um 7,5 prósent. Með nýjum TDI og TSI vélum og 7 þrepa, tvíkúplandi gírskiptingu, (DSG), hefur tekist að draga umtalsvert úr eldsneytisnotkun og koltvísýringslosun. Skýrt dæmi um þetta er nýja 1.2 TSI vélin. Þessi fjögurra strokka bensínvél afkastar 105 hestöflum en notar einungis 5,5 lítra af eldsneyti á hverja 100 ekna kílómetra, (koltvísýringslosun er 129 gr/km).
Samtals sjö, mismunandi vélagerðir verða á boðstólum í nýjum Polo á fyrsta framleiðsluári hans, þar á meðal þrjár TDI forþjöppudísilvélar, nú með samrásarinnsprautun. Skýrt dæmi um kosti nýju TDI vélanna er að finna í Polo 1.6 TDI sem skilar 90 hestöflum. Meðal eldsneytisnotkun bílsins með "BlueMotion tækninni" er 3,8 lítrar á hverja 100 ekna kílómetra og koltvísýringslosun er einungis 96 gr/km. Þetta tryggir honum sess sem sparneytnasti og minnst koltvísýringslosandi, fimm sæta dísilbíll í heiminum.
Áætlað er að framleiðsla á fimm dyra Polo hefjist í lok mars. Markaðssetning hefst síðan í síðustu vikuna í júní á þessum nýja, tæknilega og útlitslega breytta fjöldasölubíl í Þýskalandi og tveimur vikum síðar annars staðar á meginlandi Evrópu.
Nýr Polo verður fáanlegur hjá HEKLU í haust.