Fara í efni

Ráðherra fær rafbíl frá Heklu

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra hefur fengið afhentan nýjan fjögurra manna i MiEV rafbíl frá Mitsubishi og mun ráðuneytið hafa afnot af bílnum næstu tvö árin. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra hefur fengið afhentan nýjan fjögurra manna i MiEV rafbíl frá Mitsubishi og mun ráðuneytið hafa afnot af bílnum næstu tvö árin. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra hefur fengið afhentan nýjan fjögurra manna i MiEV rafbíl frá Mitsubishi og mun ráðuneytið hafa afnot af bílnum næstu tvö árin.


Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun fengu annan bíl til umráða og verða báðir bílarnir nýttir til ýmissa rannsóknarverkefna hjá fyrirtækjunum og á vegum Orkuseturs og Íslenskrar NýOrku. Hjörleifur B. Kvaran forstjóri OR afhenti jafnframt iðnaðarráðherra lykil að nýjum orkupósti sem settur hefur verið upp framan við ráðuneytið við Lindargötu.


„Það er með mikilli ánægju og gleði sem ég tek við þessum glæsilega rafbíl frá Mitsubishi og HEKLU en hann er tákn um þann ásetning stjórnvalda að koma á orkuskiptum í samgöngum á næstu misserum og árum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að við ætlum okkur að stórauka notkun á innlendu eldsneyti í samgöngum þannig að við getum dregið verulega úr innflutningi jarðefnaeldsneytis. Vinnur sérstakur starfshópur innan ráðuneytisins að því verkefni í samstarfi við fyrirtæki, sveitarfélög og skóla. Á okkar vegum hefur verið unnið að áætlun um að nýta grænu orkuna í samgöngum og móttakan á þessum bíl er viðeigandi fyrsta skref. Næst munum við kynna verkefnisstjórn orkuskiptaáætlunar og afhjúpa merki sem við vonumst til að sameina sem flesta hagsmunaaðila undir,“ segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.


„Það var árið 2008 sem Mitsubishi, HEKLA og stjórnvöld undirrituðu viljayfirlýsingu um sérstakt tilraunaverkefni hér á Íslandi varðandi rafbíla. Erlend fyrirtæki sjá tækifæri í samstarfi við íslenska aðila vegna reynslu þeirra á þessu sviði og vegna þess að hér á landi  eru endurnýjanlegar auðlindir nýttar við framleiðslu á raforku. Það er því gleðiefni þegar ráðherra fær nú afhentan þennan nýja i MiEV rafbíl, sem er fyrsti raðsmíðaði rafmagnsbíllinn fyrir Evrópumarkað. Þessi fjögurra manna bíll hefur drægi upp á 160 km á hleðslu og orkukostnaður hans er aðeins um 25.000 kr. á ári,“ segir Sverrir Viðar Hauksson framkvæmdastjóri HEKLU hf. sem er umboðsaðili Mitsubishi á Íslandi.


Viðamiklar rannsóknir hafa farið fram hérlendis á undanförnum árum á vetnisrafbílum og öðrum visthæfum bílum, t.d. þeim sem brenna metani. Metanbílar eru nú orðnir samkeppnishæfir í verði og hefur þeim fjölgað talsvert á undanförnum árum. Þróun rafbíla hefur einnig verið hröð að undanförnu og vænta flest fyrirtæki þess að innan nokkurra ára muni samkeppnishæfni rafbíla stóraukast og að þeir verði raunhæfur kostur fyrir almenning. Þangað til er mikilvægt að safna reynslu og skoða hvernig bílarnir reynast við íslenskar aðstæður.


Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun hafa bæði sett sér markmið í visthæfri samgöngustefnu um að auka hlutdeild visthæfra bíla í sinni notkun en OR rekur nú þegar 22 metanbíla, 5 vetnisbíla og einn rafbíl.  Íslensk NýOrka, sem hingað til hefur að mestu leyti rannsakað notkun á vetni, mun gera svipaðar rannsóknir á bílunum og gerðar hafa verið með vetnisrafbíla til samanburðar. Orkusetrið á Akureyri og Háskólinn á Akureyri munu vinna með NýOrku að rannsóknarhlutanum.  Bílaleiga Akureyrar er einnig þátttakandi í verkefninu og hefur fyrirtækið nú fengið umhverfisvottun og markmiðið er að skoða möguleika á auknu framboði á visthæfum bílum í framtíðinni. Hekla, Orkusjóður Landsvirkjunar og NORA styrkja alla rannsóknarvinnu í verkefninu.