Karfan er tóm.
Skapaðu þína Škoda sögu
Jómundur Ólason sauðfjárbóndi í Borgarfirði er einn þeirra manna sem tileinkað hefur sér almenna nægjusemi og nýtni. Meðal þess sem Jómundur hefur nýtt betur en margur er Skoda Octavia bíll sem kona hans keypti nýjan árið 2003. Þau hjónin og einkum Jómundur hefur varið ófáum stundum í bílnum, mestmegnis á ferðum hans frá heimili þeirra í Mosfellsbæ upp í Borgarfjörð þar sem Jómundur er með sauðfjárbúskap. Nú er svo komið að bíllinn hefur náð þeim mikla áfanga að kílómetramælir hans er kominn í 1.000.000 kílómetra.
Það var á vormánuðum 2024 sem Jómundur hafði samband við okkur hjá Heklu með spurningu er varðaði hvað myndi gerast á mælinum þegar hann færi í milljón þar sem mælirinn er einungis með sex tölureiti. Spurningin var hvort mælirinn myndi fara aftur í núll eða hvort hann færi einfaldlega ekki lengra en í 999.999?
Þetta var spurning sem við hjá Heklu bílaumboði gátum ekki svarað svo auðveldlega enda ekki algengt að bílum sé ekið svo langt. Hinsvegar fannst okkur sagan einkar áhugaverð og mikill gæðastimpill fyrir Skoda að bíllinn kæmist svo langt. Við buðum Jómundi í kaffi til okkar enda lék okkur forvitni á að heyra sögu hans. Sagan af bílnum sem fór heila milljón kílómetra þótti okkur ein og sér ótrúleg en ýmislegt annað átti eftir að koma í ljós. Að sögn Jómundar hefur aldrei verið skipt um kúplingu í bílnum né annað í húddi bílsins, þó svo að vitanlega hafi hann fengið eðlilegt viðhald á bremsum, dekkjum og öðru eins og olíu. Þá hefur Jómundur ekki hlíft bílnum á neinn hátt, ekið honum á malarvegum í öllum veðrum og meira að segja sett í hann rollur þegar á hefur þurft að halda.
Það er ekki á hverjum degi sem tækifæri sem þetta kemur upp í hendurnar á manni og því þótti okkur hjá Heklu við þurfa að segja þessa sögu. Úr varð að við fórum í að framleiða auglýsingu í samstarfi við Jómund, auglýsingastofuna Tvist, Erlend Sveinsson leikstjóra og höfuðstöðvar Skoda í Tékklandi. Jómundur segir sögu sína og stundin þegar bílnum var ekið í milljón var fest á filmu.
Þess má til gamans geta að Jómundur festi kaup á nýjum Skoda til að leysa þann gamla af hólmi og var sá gamli gefinn til bíltæknibrautar Borgarholtsskóla þar sem hann mun vonandi nýtast nemendum í bifvélavirkjanámi.
Við hjá Heklu kynnum hér með stolti þessa fallegu sögu.