Karfan er tóm.
Skoda kynnir Yeti jepplinginn
Bíllinn er nú kynntur á bílasýningunni í Genf sem fimmta gerðin sem fyrirtækið framleiðir. Yeti er 4,2 m á lengd – fimm dyra bíll sem sýndur er á 17 tommu felgum. Þrátt fyrir augljósan styrkleika bílsins er hann ekki þunglamalegur á að líta heldur miklu fremur kvikur og meðfærilegur. Yeti uppfyllir líka kröfur um vistvæna notkun, farangursrými, öryggi og veggrip.
Yeti verður boðinn með tveimur gerðum bensínvéla og þremur gerðum dísilvéla. Grunngerðin, (framhjóladrifin), er með 1,2 lítra, fjögurra strokka bensínvél með forþjöppu sem skilar 105 hestöflum. Fjórhjóladrifsgerðirnar eru með 160 hestafla, 1,8 lítra bensínvél og 140 og 170 hestafla, 2ja lítra dísilvélum.
Farangursrýmið er stækkanlegt upp í 1.760 lítra séu aftursætin fjarlægð. Yeti er skilgetið afkvæmi Skoda, bílaframleiðanda sem er þekktur fyrir að veita öðrum framleiðendum samkeppni með snjöllum framleiðslulausnum. Þess vegna er farangursrýmið í bílnum líka mjög breytilegt.
Yeti er lítill og sniðugur jepplingur sem telja má víst að láti að sér kveða á þessum markaði. Traustir aksturseiginleikar og lipurð í meðhöndlun á við um allar gerðir bílsins. Fjórhjóladrifsútfærsla bílsins býr yfir góðri utanvegagetu þar sem saman fer mikið veggrip og veghæð. Þetta ásamt lágri eldsneytisnotkun og lítilli mengun gerir það að verkum að Yeti er viðbót við jepplingaflokkinn sem umhverfið á auðvelt með að taka í sátt.
Yeti verður fáanlegur hjá HEKLU á næsta ári, 2010.