Karfan er tóm.
Þrjár bílaleigur kaupa yfir 400 bíla af HEKLU
Í gær var gengið frá sölu á 50 Skoda bifreiðum til Hertz bílaleigunnar. Áður hafði Bílaleiga Akureyrar samið um kaup á 200 nýjum Volkswagen og Skoda bifreiðum og ALP bílaleigan yngdi upp bílaflota sinn með 160 Volkswagen Golf og Polo bílum frá HEKLU.
„Við lítum á það sem mikla viðurkenningu þegar svo umsvifamiklir fagmenn í rekstri stórra bílaleiga velja bílana frá okkur. Sú breiða lína sem við getum boðið af traustum og sparneytnum gæðabílum frá Volkswagen og Skoda hefur sannarlega hitt í mark,“ segir Knútur G. Hauksson, forstjóri HEKLU.
Gott samstarf HEKLU og Hertz
Samningurinn við Hertz undirstrikar gott samstarf HEKLU og Herts bílaleigunnar sem undanfarin ár hefur verið með Skoda Octavia í bílaflota sínum vegna óska viðskiptavina um stærri en jafnframt hagkvæmari bíla.
„Skoda Octavia er einstaklega hagkvæmur bíll í rekstri og sparneytinn og hefur verið mjög vinsæll meðal okkar viðskiptavin. Jafnframt var ákveðið að festa kaup á Skoda Yeti, nýja fjórhjóladrifna jepplinginum, sem er sparneytinn eins og aðrar Skodabifreiðar og hentar okkur því ákaflega vel,“ segir Hendrik Berndsen, stjórnarformaður Hertz, sem festi nýlega kaup á Bílaleigu Hertz ásamt þeim Sigurði Berndsen, fjármálastjóra Hertz, Sigfúsi B. Sigfússyni, framkvæmdastjóra Hertz, og Sigfúsi R. Sigfússyni.
Skoda bifreiðarnar 50 verða afhentar á vormánuðum og von er á frekari samningum HEKLU og Hertz um tugi bíla til viðbótar. „Við ætlum að vera búnir að endurnýja allan bílaflota okkar næsta haust og bæði Skoda Octavia og Yeti-jepplingurinn falla einstaklega vel að þeim áformum, enda öruggir, traustir og hagkvæmir bílar,“ segir Sigfús B. Sigfússon, framkvæmdastjóri Hertz.
Bílaleiga Akureyrar kaupir 200 nýja Volkswagen og Skoda
Bílaleiga Akureyrar – Höldur ehf. hefur einnig samið við HEKLU um kaup á 200 Volswagen og Skoda bifreiðum sem afhentar verða í vor.
Steingrímur Birgisson forstjóri Hölds segir fyrirtækið leggja áherslu á að bjóða nýja og örugga gæðabíla sem eru hagkvæmir í rekstri. Volkswagen Golf og Skoda Octavía séu stór hluti þess flota sem Bílaleiga Akureyrar hefur á boðstólum og með hækkandi eldsneytisverði skipti sparneytni bílanna sífellt meira máli. Þar komi Volkswagen Golf og Skoda Octavia sterkir inn.
„Bókanir fyrir sumarið benda til þess að eftirspurn eftir bílaleigubílum verði meiri í ár en í fyrra. Síðasta ár var gott og nú sjáum við fram á aukningu, þannig að við getum ekki verið annað en bærilega sáttir,” segir Steingrímur en alls verða á milli 2.200 og 2.300 bílaleigubílar í rekstri hjá Bílaleigu Akureyrar í sumar.
ALP kaupir 160 Volkswagen Golf og Polo
Þriðji stóri bílasölusamningurinn sem HEKLA hefur gengið frá á síðustu dögum er um kaup ALP bílaleigunnar, umboðsaðila AVIS og BUDGET á Íslandi, um kaup á 160 nýjum Volkswagen Golf og Volkswagen Polo sem verða afhentir á vormánuðum.
„Við erum mjög ánægð með þennan samning enda eru Volkswagen bílarnir þekktir fyrir áreiðanleika og gæði,“ segir Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri ALP.
Björn segir útlit fyrir að mikil eftirspurn verði eftir bílaleigubílum í sumar og því sé mikilvægt að velja samstarfsaðila með góða bíla og hátt þjónustustig. „Við leggjum áherslu á að bjóða nýlega og góða bíla en það er liður í að veita viðskiptavinum okkar afburða þjónustu. Því er það okkur mikil ánægja að gera þennan samning við HEKLU.
Volkswagen bílarnir hafa reynst mjög áreiðanlegir og hafa unnið til fjölda viðurkenninga á undanförnum árum og áratugum. Þannig var Volkswagen Golf nýlega valin öruggasti bíllinn af óháðum samtökum um árekstraprófanir í Evrópu og þá hefur Volkswagen Polo meðal annars verið valinn bíll ársins 2010 af bílatímaritinu AutoBild.