Karfan er tóm.
Volkswagen Amarok - nýr pallbíll frá Volkswagen
Með Amarok hefst framleiðsla og sala á pallbílum af miðstærð hjá Volkswagen atvinnubílum. Í þessum flokki seljast árlega um tvær milljónir bíla á heimsvísu. Amarok er fjórða bílgerðin sem Volkswagen atvinnubílar framleiða og ennfremur fyrsti pallbíllinn í 1 tonns flokki sem hannaður er í Þýskalandi. Þessi nýi bíll tvinnar saman þann styrkleika sem vænst er af pallbílum, nýja tækni, mikinn öryggisbúnað og góða útkomu hvað varðar sparneytni, þægindi og vinnuumhverfi. Framleiðsla bílsins er um það bil að hefjast í verksmiðju Volkswagen í Buenos Aires í Argentínu.
Skoðaðu hér örvef Amarok.
Amarok verður kynntur á heimsvísu í ferna dyra, "double cab-útfærslu" og á fyrri hluta árs 2011 verður "single cab-útfærslan" kynnt. Amarok er allt að 5,25 metrar á lengd og formrænt og stílrænt er eins og hann sé tekinn beint út úr forskriftarbók fyrir pallbíla. Yfirbyggingin, sem situr á sterkbyggðri grind, dregur glögglega dám af nýrri hönnunarhugmyndafræði Volkswagen. Eins og jafnan áður er áherslan öll á láréttar línur, skýran samleik yfirborðsforma og nákvæmni. Það sem einkennir ekki síst framsvip Volkswagen nútímans er samruni teygðra framljósa og vatnskassahlífar í eitt hönnunarverk. Rimarnar og skreytilistar í vatnskassahlífinni bera greinilega með sér mikla áherslu á smáatriði í hönnun. Alveg frá framsvip bílsins má greina form sem teygir sig yfir brettin að hliðargluggunum og lokar þeim í boga. Skýrt aðgreindar boglínur í hliðum og vélarhlíf ásamt stórum hjólaskálum ljá Amarok yfirbragð stöðugleika með sterklegum formum.
VW-merkið skrýðir síðan einfaldan flöt afturhlerans. Sitt hvorum megin við hlerann eru afturljós sem eru sérstaklega hönnuð til að veita mikla birtu að næturlagi. Miklar kröfur til hönnunar eru meira að segja áberandi í stílrænni útfærslu brettanna og hvernig þau falla að yfirbyggingu pallbílsins. Þetta aðgreinir Amarok frá keppinautunum og gefur skýrt til kynna að hér er um hreinræktaðan Volkswagen að ræða með tilheyrandi gæðum og nákvæmni í framleiðslu.
Þroskaður, aflmikill og sparneytinn:
Kraftmiklar TDI-dísilvélar með framsækinni tækni
Volkswagen atvinnubílar valdi tvær áreiðanlegar, sparneytnar, umhverfisvænar og hátæknivæddar dísilvélar með forþjöppum í aflrás Amarok. 163 hestafla, 2,0 TDI-vélin er með samrásarinnsprautun og tveggja þrepa tvíforþjöppu og togar 400 Nm við aðeins 1.500 snúninga á mínútu. Hin fjögurra strokka TDI-dísilvélin, sem skilar 122 hestöflum, stendur viðskiptavinum til boða um mitt ár 2010. Hún er með forþjöppu með breytilegum skurðpunkti og afkastar að hámarki 340 Nm við 2.000 snúninga á mínútu. Báðum vélunum fylgir sex gíra handskiptur gírkassi.
Auk hins snarpa viðbragðs vekja vélarnar báðar athygli fyrir einstaka sparneytni sem setur ný viðmið fyrir allan markaðinn í þessum stærðarflokki. Taka má sem dæmi Amarok með tengjanlegu aldrifi. Jafnvel í þessari 4x4-útfærslu er eyðsla 122 hestafla TDI-vélarinnar einungis 7,6 lítrar á hundraðið (sem svarar til 199 gr/km CO2). 163 hestafla TDI-vélin er ekki síður sparneytin, eða 7,8 lítrar á hundraðið (206 gr/km CO2). Þetta mun vera fyrsti aldrifsbíllinn í þessum stærðarflokki sem losar innan við 200 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra. Í pallbílnum er 80 lítra eldsneytistankur og ökudrægið er því yfir 1.000 kílómetrar. Allar gerðir Amarok pallbílanna eru ennfremur búnar gírskiptivísi sem aðstoðar ökumenn að ná sem mestri sparneytni í akstri.
Val um þrjú drif:
Kvikur og öruggur við allar aðstæður
Þrjár mismunandi útfærslur á drifbúnaði, þ.e. sítengt aldrif, tengjanlegt aldrif og afturhjóladrif, eru í boði til að miðla aflinu til hjólanna. Hver útfærsla er hönnuð fyrir sína sérstöku notkun. Í grunngerðinni er Amarok með afturhjóladrifi. Þessi gerð er ætluð viðskiptavinum sem aðallega velja að kaupa pallbílinn útlitsins vegna og með fjölbreytni í notkun í huga.
Aldrifsgerðirnar tvær eru á heimavelli við allar aðstæður. Ákjósanlegur kostur fyrir ferðalög um fjöll og firnindi er Amarok 4MOTION með tengjanlegu aldrifi. Hann er merktur með rauðu "4". Amarok 4MOTION með svörtu "4" er með sítengdu drifi og enn meiri þægindum. Hann er búinn sömu kostum aldrifsins en hentar síður á borgarstrætin.
Amarok með tengjanlegu aldrifi styðst við driftengsli sem eru margreynd í pallbílum. Þegar driftengingin er virkjuð með því að þrýsta á takka, færist aflmiðlunin til beggja ása bílsins. Við erfiðustu aðstæður er lágt drif einnig í boði sem auðveldar akstur í torfærum. Fullhlaðinn ræður pallbíllinn við akstur í 100% halla. Slitþolin gormasettin með stigverkandi (progressive) hönnun, með þremur aðalgormaplötum og tveimur viðbótargormaplötum, tryggja öryggi í notkun, jafnvel við yfirhleðslu.
Fágætt er í þessum flokki bíla að boðið sé upp á útfærslu með sítengdu aldrifi. Torsen mismunadrifið miðlar aflinu í hlutföllunum 40:60 til fram- og afturáss sem tryggir bæði framúrskarandi kvikleika í akstri og mikið veggrip. Auk þess tryggja hemlunarinngrip við akstur á grófu undirlagi að mest af vélaraflinu fer jafnan til þess hjóls sem mesta gripið hefur. Þessi uppsetning á drifi er síðan tvinnuð við undirvagn sem hefur verið sérstaklega stilltur fyrir sem mest þægindi í akstri.
Mismunadrifslæsing fyrir afturdrif er fáanleg með öllum drifgerðum bílsins.
Allt frá vinnubíl til sportlegs pallbíls:
Þrjár búnaðarútfærslur sem uppfylla kröfur flestra
Amarok er fáanlegur í þremur búnaðarútfærslum. Grunngerðin reiðir sig á hreina véltæknilega og slitsterka íhluti - rúður eru handstýrðar sem og dyralæsingar og hliðarspeglar. Framstuðari, hurðahúnar og hliðarspeglar eru ekki samlitir sem hentar vel þegar bíllinn er notaður í grófa vinnu. Grunngerðin kemur á 16 tommu stálfelgum. Annar staðalbúnaður er t.a.m. hæðarstillanleg framsæti, niðurfellanlegur afturbekkur, hanskahólf með læsingu og lýsing á palli. Sérstakur búnaður sem fylgir grunngerðinni eru loftnet sem innfelld eru í hliðarspeglana.
Amarok Trendline er einu stigi ofar í búnaði. Í þessari útfærslu eru framstuðari, hurðahúnar og hliðarspeglar samlitir bílnum. Rúður, dyralæsingar og stillingar á hliðarspeglum eru rafstýrðar. Að auki fylgir honum útvarp með geislaspilara, loftfrískunarkerfi (Climatic), fjölaðgerða skjár, hraðastillir og þokuljós. 16 tommu álfelgur undirstrika síðan sterklega ásýnd pallbílsins.
Best búna útfærslan, Amarok Highline, er með enn meiri þægindabúnaði. Auk grunnsins í Trendline er Highline-útfærslan með hliðarspeglahús úr krómi að hluta, ýmsum krómskreytingum að utan- og innanverðu og samlita brettakanta sem auka rýmið fyrir 17 tommu álfelgurnar. Þessu til viðbótar er Highline með litaandstæður í mælaborði sem ræðst af öðrum búnaði, sjálfvirkt loftfrískunarkerfi (Climatronic), leðri í innréttingu, betra hljómkerfi og glæsilegu sætaáklæði.
Til viðbótar við langan lista staðalbúnaðar er breytt úrval aukabúnaðar í boði fyrir Amarok - allt frá stílhreinum stigbrettum, pallloki og Multi-Connect-hleðslufestingum (staðalbúnaður í Trendline og Highline) og úrvali af álfelgum.
Nóg rými fyrir farþega og farangur:
Mikið innanrými og breiðasti pallurinn í stærðarflokknum
Innanrýmið: Mikið og vinnuvistfræðilega hannað innanrýmið er hið mesta í stærðarflokknum og víkur í þeim efnum ekki langt frá öðrum framleiðslugerðum Volkswagen. Þægilegt aðgengi, mikið pláss og innanhæð einkenna "vinnustaðinn" á bak við stýrið. Þessir eiginleikar ásamt nægu fótarými fyrir farþega í afturbekknum gera Amarok að fullgildum fimm manna bíl. Þegar einungis tveir ferðast í bílnum er hægt að fella niður aftursætið og auka þannig farangursrýmið inni í bílnum.
Að utanverðu: Hleðslupallur Amarok státar af stærstu málunum í sínum stærðarflokki. Veghæð gólfsins í pallinum er einungis 525 millimetrar. Hleðslusvæðið er 2,52 fermetrar að stærð (1.555 millimetrar á lengd og 1.620 millimetrar á breidd). En þar með er ekki allt upptalið. Breidd pallsins milli hjólaskála, 1.222 millimetrar, er sú mesta í stærðarflokknum. Í fyrsta sinn er hægt að koma Euro-pallettum fyrir á þverveginn á pallbíl í miðstærðarflokki og nýta hleðsluplássið þar með betur. Þökk sé mikilli stærð pallsins og hleðslugetu upp á 1.150 kg, er hægt flytja á honum tæki eins og fjórhjól eða fyrirferðarmiklar vélar. Fjórar festingalykkjur í hornum pallsins hjálpa til við að festa niður farangur meðan á akstri stendur. Þessu til viðbótar þolir dráttarkrókurinn (aukabúnaður) allt að 2,8 tonna hleðslu í eftirvagni.
Fjórir öryggispúðar, ESP, ASR, ABS og stoðkerfi:
Amarok setur ný viðmið um öryggisbúnað fyrir stærðarflokkinn
Amarok er að sjálfsögðu með hæðarstillanleg öryggisbelti og hnakkapúða fyrir öll fimm sætin. Öryggisbelti fyrir framsætin eru með beltastrekkjurum og eru tengd viðvörunarbúnaði sem gefur frá sér hljóð og mynd. Hliðaröryggispúðar til varnar höfði ökumanns og farþega í framsæti eru einnig fáanlegir. ABS-hemlalæsivörn og ASR-spólvörn eru staðalbúnaður í Amarok. Rafeindastýrð mismunadriflæsing (EDL) er sömuleiðis staðalbúnaður. Annar staðalbúnaður, sem virkjaður er með einum hnappi, er Off-Road ABS, hemlalæsing fyrir utanvegaakstur, sem dregur verulega úr hemlunarvegalengd á utanvegaslóðum og malarvegum. ESP-stöðugleikastýring í bílnum (aukabúnaður) virkjar ennfremur Brekkuviðhald (Hill Descent Assist) á undir 30 km hraða ef hemlalæsing fyrir utanvegaakstur er virk. Búnaðurinn viðheldur jöfnum hraða með hemlunarinngripi og þetta tryggir öruggan akstur niður brekkur. Með því að stíga á hemla eða inngjöf er í fyrsta sinn í ökutæki í þessum flokki bíla hægt að stilla af ökuhraðann miðað við aðstæður, þegar farið er niður brekkur á undir 30 km hraða.
Þessu til viðbótar eru allar gerðir búnar ESP plus Hill Hold Assist sem heldur ökutækinu kyrru í upphallandi brekku þar til ökumaður stígur nægilega fast á inngjöfina til þess að koma í veg fyrir að bíllinn renni aftur á bak.
Markaðssetning í Suður-Ameríku; í kjölfarið kynntur í Ástralíu og Suður-Afríku sem og Evrópu
Helstu markaðir fyrir Amarok eru Suður-Ameríka, Suður-Afríka og Ástralía. Á þessum mörkuðum eru pallbílar einna eftirsóttustu vinnu- og frístundabílarnir vegna fjölhæfni sinnar. Á grundvelli skilvirkrar tækni í drifrás og óviðjafnanlegrar fjölhæfni má einnig búast við því að Amarok skapi ný viðhorf meðal kaupenda pallbíla í Evrópu. Markaðssetning í Suður-Ameríku er áætluð snemma árs 2010 og Evrópa siglir í kjölfarið á öðrum árshluta 2010.