Karfan er tóm.
Volkswagen EcoFuel. Raunhæfur kostur fyrir almenning.
- 450% söluaukning á metanbílum í Svíþjóð. 4-500 Volkswagen EcoFuel metanbílar eru nú seldir þar í landi í hverjum mánuði. Nú þegar eru skráðir yfir 18.000 metanbílar í Svíþjóð.
- Fyrsti Metan-bíllinn sem er ódýrari en venjulegir bílar er nú kominn til landsins. Passat EcoFuel metanfjölskyldubíllinn er 15% ódýrari en bensínútgáfa sama bíls.
- VW Passat EcoFuel er framleiddur bæði með metan- og bensíntank. Hann kemst tæpa 900 km á einni áfyllingu, velur alltaf metan sem fyrsta kost, og það er enginn munur á aksturseiginleikunum.
- Það er metanvika hjá Heklu 12.-16. október. Hægt að reynsluaka 4 ólíkum metanbílum.
Metanknúinn fjölskyldubíll
Í þessari viku stendur bílaumboðið Hekla fyrir sérstakri metanviku (12.-16. október ) en þá getur fólk komið og reynsluekið einhverjum af hinum metanknúnu Volkswagen bílum eins og Passat, Touran, Caddy eða Caddy Life. Tilefnið er koma nýrrar kynslóðar metanbíla frá Volkswagen undir heitinu EcoFuel. Á Íslandi hafa metanbílar verið þekktastir sem vinnubílar en nú hefur Volkswagen sett á markað nýjan metanknúinn fjölskyldubíl, Volkswagen Passat EcoFuel, sem segja má að sé fyrsti raunhæfi möguleikinn fyrir almenning á að eignast metanbíl. Hann er í fyrsta lagi umtalsvert ódýrari en hefðbundin bensínútgáfa af VW Passat sökum þess að stjórnvöld hafa ákveðið lægri skattheimtu af innflutningi metanbíla. Metanbíllinn kostar nýr um 4,2 milljónir á meðan venjulegur Passat er rúmlega 600.000 krónum dýrari. Í öðru lagi er drægi hans meira en fyrri metanbíla. Passat EcoFuel er útbúinn með bæði 32 rúmmetra metantanki og 31 lítra bensíntanki og er því ekki háður því að hafa aðgang að metan-áfyllingarstöðvum jafn víða og metanbílar sem ekki eru með bensínstank. Hægt er að aka til Akureyrar og tilbaka á eldsneytinu sem í hann kemst.
Kreppan flýti orkuskiptum
Akstur á metani er ekki aðeins umhverfisvænni akstur (metan er framleitt úr sorpi) heldur einnig mun ódýrari. Verð metans á bíla er 98 kr./Nm3 sem samsvarar 87,50 kr./l. af 95 okt. bensíni. Vonir forsvarsmanna Heklu standa til að selja fleiri nýja VW Passat EcoFuel með metantank heldur en hefðbundna bensínbíla sömu gerðar. Efnahagsástandið muni hafa þau áhrif að fleiri líti til þess hvað kostar að reka nýjan bíl. Næg framleiðsla er á metani til að knýja áfram að minnsta kosti 3.500 bíla miðað við núverandi framleiðslugetu og mikilvægur stuðningur stjórnvalda er til staðar, þá er loksins komið tækifæri að láta markaðinn keyra áfram orkuskiptin sem þurfi að verða til að minnka útblástur íslenska bílaflotans eins og íslensk stjórnvöld hafa boðað.
Metan vinsælt í Svíþjóð, hagkvæmt fyrir Íslendinga
Mikil metanvæðing hefur átt sér stað í Svíþjóð undanfarið, en frá því að Volkswagen kynnti nýja metanbíla sína þar fyrr á þessu ári hefur sala metanbíla aukist um 450% (http://www.metan.is/user/news/view/11/264). Volkswagen Passat EcoFuel hefur verið hvað vinsælastur en til dæmis í júnímánuði á þessu ári nam hlutdeild Passat EcoFuel um 68% af nýskráðum metanbílum í Svíþjóð. Volkswagen hefur náð mikilli hagkvæmni í framleiðslu metanbíla þar sem metanbíllinn fylgir bensínbílnum sömu leið í gegnum allt framleiðsluferlið. En venjan hefur verið að bíllinn sé framleiddur og honum svo breytt eftir á sem hefur í för með sér aukinn framleiðslukostnað. Metan ætti líka að vera góður kostur fyrir Ísland þar sem metan er lífrænt eldsneyti sem Íslendingar geta sjálfir framleitt.
Jón Trausti Ólafsson, marksaðsstjóri HEKLU:
„Passat EcoFuel er rúmgóður fjölskyldubíll. Hann er með rúmlega 150 hestafla vél og það er enginn munur á aksturseiginleikum metanbílsins og hefðbundins bensínbíls. Bíllinn velur sjálfur metan sem sinn aðalorkugjafa og þú sérð tvo mæla í mælaborðinu, einn fyrir metan og annan fyrir bensín. Að öðru leyti finnur þú engan mun, nema þann að veskið þitt léttist hægar. HEKLA hefur í 10 ár selt metanbíla og er með yfir 80% hlutdeild í seldum metanbílum hér á landi. Reynslan hefur verið góð og núna loksins er kominn á markað metanbíll sem svo sannarlega á erindi sitt við okkur Íslendinga. Við hvetjum umhverfismeðvitaða Íslendinga til að leggja leið sína í HEKLU til að reynsluaka metanbílunum.