Karfan er tóm.
Volkswagen kynnir heimsins sparneytnustu bíla
Framleiðsla og þróun á sparneytnum bílum sem eru hagkvæmir í innkaupum er það sem allt snýst um í bílaheiminum í dag. Ekki síður er umhverfisvernd einn af lykilþáttunum í bílaframleiðslu. Og menn spyrja sig nú hvort þegar séu komnir á markað bílar sem taka mið af þessum staðreyndum. Á bílasýningunni í Frankfurt, sem hófst 15. september, kynnir Volkswagen nýjar kynslóðir Polo BlueMotion, Golf BlueMotion og Passat BlueMotion, sem eru sagðir sameina á snjallan hátt fremstu fáanlegu tækni á þessu sviði og verðlagningu sem hæfir kaupgetu almennings. Allar þessar þrjár gerðir eru þær sparneytnustu í heimi, hver í sínum stærðarflokki. Þær eru allar frumsýndar í Frankfurt sem framleiðslugerðir og koma á markað í Evrópu síðar í haust og á næsta ári.
Nýr 75 hestafla Polo eyðir að jafnaði 3,3 lítrum af dísilolíu á hverja 100 ekna km og stefnir því hraðbyri að því að verða sparneytnasti fimm sæta bíll sögunnar. Með BlueMotion tækninni hefur VW tekist að draga úr koltvísýringslosun frá bílnum um 20% miðað við hefðbundinn 75 hestafla Polo TDI og eyðslan hefur fallið niður um 0,9 lítra á hverja 100 km. Volkswagen hefur reiknað út að eldsneytiskostnaður Polo BlueMotion sem ekið er frá Berlín til Frankfurt, sem er 545 km löng leið, sem er svipað langt og frá Reykjavík að Kópaskeri, yrði rúmar 3.200 ÍSK miðað við eldsneytisverð í dag (178 kr. líterinn af dísil). Það að koma við á bensínstöð verður fátíður viðburður á Polo BlueMotion því hámarksökudrægi bílsins, sem hefur 45 lítra eldsneytistank, er 1.363 km. Það ætti því að vera hægt að fara hringinn í kringum Ísland á einni tankfyllingu og gott betur því hringveguinn er 1.339 km. Miðað við 11.000 km meðalakstur á ári þyrfti eigandi Polo Bluemotion að fylla tankinn átta sinnum. Sé gengið út frá því að verð á dísillítra sé 178 ÍSK yrði eldsneytiskostnaðurinn á ári 64.080 ÍSK. Polo BlueMotion kemur á markað á næsta ári.
VW frumsýnir líka sparneytnasta Golf allra tíma. Hann er með nýrri og hljóðlátri dísilvél með samrásarinnsprautun og forþjöppu. Með BlueMotion tækninni skilar hann 105 hestöflum en eldsneytiseyðslan er aðeins 3,8 lítrar á hundraðið. Hann er því ótvírætt sparneytnasti bíll heims í sínum stærðarflokki. Koltvísýringslosunin er 99 gr/km. Hámarksökudrægi er 1.447 kílómetrar og því ætti að vera nóg að fylla tankinn á 5 vikna fresti fyrir 9.800 ÍSK m.v. dísilverð í dag.
Passat BlueMotion er með sömu vél og Golf BlueMotion. Hann eyðir að jafnaði 4,4 lítrum á hundraðið og hámarksökudrægi er 1.591 km á einni fyllingu á 70 lítra tankinn. Miðað við kjöraðstæður þarf því ekki að fylla á tankinn nema níu sinnum á ári m.v. 15.000 km akstur á ári. Sparneytnari bíll fyrirfinnst ekki í stærðarflokknum. Eldsneytiskostnaður á ári væri því um 117.500 ÍSK. Allar BlueMotion gerðirnar þrjár losa undir 120 gr/km af koltvísýringi og uppfylla því skilyrði sem gerð eru um visthæfar bifreiðar og þar með ókeypis bílastæði í Reykjavík.
Hvað er BlueMotion?
Það er BlueMotion tæknin sem er kjarninn í þessum þremur sparigrísum. BlueMotion er yfirgripsmikil tæknilausn með háþróuðum íhlutum og hárnákvæmri tækniútfærslu. Sparneytnar og visthæfar TDI-dísilvélarnar eru með samrásarinnsprautun og endurbættum hugbúnaði fyrir vélstýrikerfið sem skilar m.a. minni snúningshraða á lausagangi. Gírhlutföllin eru lengri í fimm þrepa gírskiptingunum sem fylgja BlueMotion og skjár í mælaborðinu, sem sýnir hagkvæmasta gírinn hverju sinni, stuðlar að hámarks eldsneytisnýtingu. BlueMotion er líka með búnað sem endurheimtir orku sem verður til við hemlun, Start-Stop (sem drepur sjálfkrafa á vélinni, t.a.m. á rauðum ljósum), hjólbörðum með lágmarks viðnámi, léttmálsfelgum með lágri loftmótstöðu og lægri veghæð (í Polo og Golf).