Karfan er tóm.
Volkswagen kynnir pallbílinn Amarok
Markaðssetning í Suður-Ameríku er fyrirhuguð vorið 2010. Með Amarok stefnir Volkswagen að því að verða fullgildur þátttakandi í alþjóðlegum markaði fyrir pallbíla þar sem japanskir framleiðendur hafa fram til þessa að mestu leyti verið einráðir. Volkswagen atvinnubílar kynntu eftirtektarverðan pallbíl í hugmyndaútfærslu á alþjóðlegu atvinnubílasýningunni IAA á síðasta ári. Sá gaf fyrirheit um hvernig fyrsti pallbíllinn frá fyrirtækinu liti út. Amarok verður framleiddur í „Pacheco“ verksmiðju Volkswagen nálægt Buenos Aires í Argentínu.
Orðið Amarok er úr tungumáli Inúíta sem búa í norðanverðu Kanada og á Grænlandi. Orðið merkir úlfur. Í hugum Inúíta er úlfurinn konungur merkurinnar; úlfurinn beri af öðrum skepnum vegna styrks, þolgæðis, lífsvilja og yfirburða.
Í rómönskum málum, sem töluð eru á hinum stóru kaupendamörkuðum í Brasilíu og Argentínu, merkir Amarok einnig „sá sem ann steinum“. Pallbílar eru mjög eftirsóttir í fyrrgreindum löndum jafnt til frístundanotkunar og í atvinnuskyni sökum fjölhæfni þeirra. Gæði Amarok og geta hans til utanvegaaksturs gerir hann að afar fýsilegum valkosti kaupenda pallbíla.
"Nafnið endurspeglar fullkomlega eiginleika pallbílsins sem mun setja ný viðmið í þessum flokki bíla. Nafnið var valið af mikilli kostgæfni og það hentar til notkunar á öllum mörkuðum. Nafnið Amarok á að vekja jákvæð hughrif á öllum mörkuðum og hafa skýrari tengingar við notkunargildi bílsins strax við markaðssetningu en felst í nöfnum rótgrónari keppinauta,“ segir Stephan Schaller, stjórnarformaður Volkswagen atvinnubíla.
Amarok er fyrsti pallbíll í þessum stærðarflokki sem framleiddur er af evrópskum bílaframleiðanda. Samkeppni frá öðrum pallbílum í 1-tonna flokki mun einkum koma frá asískum framleiðendum. Amarok er sjötta gerðin sem framleidd er af Volkswagen atvinnubílum en fyrir eru gerðirnar Caddy, Transporter (eða Multivan) og Crafter ásamt Saveiro og T2, en tveir síðastnefndu eru eingöngu til sölu í Suður-Ameríku. Amarok er mikilvægur hlekkur í vexti Volkswagen samstæðunnar og opnar dyr fyrir fyrirtækið inn á nýjan markað.
"Með Amarok fær vörumerkið Volkswagen atvinnubílar nýja og enn alþjóðlegri skírskotun. Fyrirtækið er stolt af því að þróa, framleiða og selja þetta ökutæki sem er afar mikilvægur hlekkur í vexti Volkswagen samstæðunnar. Amarok er ennfremur eðlileg viðbót inn í alþjóðlega vörulínu okkar,“ segir Schaller.
Amarok verður kynntur sem fernra dyra „double-cab“ með fjórhjóladrifi. Síðar verður boðið upp á „single-cab“ útfærslu. Ekkert er sparað í tæknilegri útfærslu pallbílsins. Hann verður boðinn með sparneytnum vélum og útlitshönnunin er í takt við nýjustu strauma hjá Volkswagen. Hugmyndabíllinn sem sýndur var á IAA-sýningunni gaf vísbendingu um það sem er í vændum. Hjartað í aflrás bílsins verður hátæknileg, aflmikil en um leið sparneytin dísilvél með forþjöppu og nýjustu kynslóð samrásarinnsprautunar (TDI). Amarok verður með hagstæðari eldsneytisnýtingu og minni útlosun mengandi lofttegunda en áður hefur tíðkast í flokki pallbíla.
Ráðgert er að Amarok verði fyrst settur á markað í Suður- og Mið-Ameríku vorið 2010 og í framhaldi af því í Rússlandi og Evrópu sem og Afríku og Ástralíu. Amarok er væntanlegur til Íslands haustið 2010.