Karfan er tóm.
Volkswagen með heimsfrumkynningu á bílasýningunni í Frankfurt
Volkswagen kynnir nýstárlegan og sparneytinn borgarbíl á bílasýningunni í Frankfurt sem nú stendur yfir. Bíllinn heitir E-Up! og er hugmynd Volkswagen um hreinlátan og sparneytinn borgarbíl í framtíðinni. Jafnframt kynnir Volkswagen fjölda ofursparneytinna dísilbíla á sýningunni sem eiga að brúa bilið fram að þeim tíma sem hagkvæmt verður að hefja fjöldaframleiðslu á rafbílum, sem fyrirtækið áætlar að verði á árinu 2013.
E-Up! er fjögurra sæta borgarbíll, 3,19 m að lengd. Hann er ný hönnun og minnsti bíll sem Volkswagen hefur skapað. Það óvenjulega við innanrýmið er að tveir farþegar komast við hlið ökumanns og aftan við ökumannssætið er lítið aukasæti. Þak E-Up! er þakið sólarrafhlöðum sem ná yfir allt að 1,7 fermetra svæði. Sólarrafhlöðurnar framleiða orku inn á rafgeyminn þegar bílnum er ekið og framleiða orku til að kæla innanrýmið þegar bíllinn er ekki í notkun
E-Up! er knúinn einum rafmótor sem er staðsettur framan við framásinn. Hann skilar 80 hestöflum og hámarkstog er 210 Nm. Ökumaður velur framgír eða afturgír með snúningsrofa í miðjustokk bílsins. Líklegt má telja að E-Up! sé nokkuð skemmtilegur í akstri því hann vegur ekki nema 1.085 kg og er ekki nema 11,3 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km. Hröðun í 50 km/klst, sem er hin dæmigerða hröðun í borgarakstri, er 3,5 sekúndur.
Lítil þyngd bílsins vekur athygli, ekki síst í ljósi þess að liþíum-jóna rafgeymirinn einn og sér vegur 240 kg. Akstursdrægi bílsins er 130 km en algengur akstur í Reykjavík er um 30 km á dag. Hér þyrfti því ekki að hlaða bílinn nema á rúmlega fjögurra daga fresti. Hægt verður að hlaða hann með venjulegu heimilisrafmagni en einnig er gert ráð fyrir að á þeim tíma sem E-Up! kemur á markað verði búið að koma upp hleðslustöðvum víða í borgum. Hægt verður að ná 80% hleðslu inn á rafgeyminn á innan við einni klukkustund á slíkum hleðslustöðvum en full hleðsla á heimili tekur fimm klukkustundir.